Dagur Árni framlengir um tvö ár

Handbolti
Dagur Árni framlengir um tvö ár
Dagur og Haddur handsala samninginn góða

Dagur Árni Heimisson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út tímabilið 2025-2026. Það eru frábærar fréttir að Dagur Árni hafi skrifaði undir nýjan samning enda einn allra efnilegasti handboltamaður landsins.

Dagur Árni sem er 17 ára gamall hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað 46 leiki fyrir meistaraflokkslið KA þar sem hann er kominn í lykilhlutverk. Dagur er uppalinn hjá KA en hann er hluti af hinum ógnarsterka 2006 árgangi KA en strákarnir töpuðu ekki leik í rúmlega tvö ár er þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna.

Þá er Dagur einnig fastamaður í yngrilandsliðum Íslands þar sem hann hefur heldur betur látið til sín taka. Hann var valinn í úrvalslið Opna Evrópumótsins í Gautaborg síðasta sumar er strákarnir í U17 ára landsliði Íslands enduðu í 5. sæti.

Auk þess er Dagur með frábært hugarfar og er afar drífandi í kringum starf handknattleiksdeildar. Hann hlaut Böggubikarinn á 95 ára afmælisfögnuði KA á síðasta ári en hann er veittur einstakling sem þykir efnilegur í sinni grein en er ekki síður sterkur félagslega og er til fyrirmyndar á æfingum og í keppni.

Foreldrar Dags eru þau Heimir Örn Árnason og Martha Hermannsdóttir og þarf hann því ekki að leita langt í handboltahæfileikana en bæði hömpuðu þau Íslandsmeistaratitli með KA og KA/Þór.

Haddur Júlíus formaður handknattleiksdeildar var hæstánægður við undirritunina, "við erum stoltir af því að framlengja samninga við ungu leikmennina okkar. Dagur Árni er einn efnilegasti leikmaður landsins og sýnir okkur mikla tryggð með því að skuldbinda sig hjá KA í tvö ár í viðbót." Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA var einnig í skýjunum, "þetta eru enn einar frábæru fréttirnar af leikmannamálum hjá okkur. Við erum að byggja til framtíðar og Dagur Árni er lykilpúsl í liðinu okkar næstu árin."

Það eru stórkostlegar fréttir að Dagur Árni hafi skrifað undir nýjan samning við KA og klárt að það verður áfram afar spennandi að fylgjast með framgöngu þessa öfluga kappa í gula og bláa búningnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is